Skotfélag Akureyrar og Fallorka hafa gert með sér eftirfarandi samkomulag.

„Fallorka mun láta moka snjó af veginum upp að skotsvæðinu allt að
þrisvar sinnum á vetri umfram þann mokstur sem félagið myndi annars
gera vegna eigin þarfa í tengslum við Glerárvirkjun 2.
Fallorka mun einnig gera á hverju sumri eitthvert viðvik sem kemur
Skotfélaginu til góða svo sem lagfæringar á veginum eða á drenun með
veginum eða þá á girðingum, merkingum eða öðru, í samráði við
Skotfélagið.
Í staðinn mun Skotfélagið kynna þetta samkomulag fyrir sínum c.a 400 félagsmönnum á heimasíðu og á Facebook og hvetja þá til að ganga
úr skugga um að hver og einn sé örugglega að kaupa raforku á sínu
heimili frá Fallorku. Traustur hópur viðskiptavina er að sjálfsögðu
lykillinn að því að Fallorka geti dafnað og hafi fjármuni úr að spila
til að styðja við félagsstarf og íþróttastarf á Eyjafjarðarsvæðinu.
Samkomulag þetta er gert til þriggja ára og reiknað með að það verði
framlengt ef vel tekst til.“
Stjórn Skotfélags Akureyrar fagnar þessu samkomulagi sem hefur mikla þýðingu fyrir starf Skotfélagsins á Glerárdal allt árið. Upphaf þessa samstarfs Fallorku og Skotfélag má rekja til þess er fallpípa Fallorku var grafin í gegnum félagsvæði okkar með tilheyrandi raski og umferð hjá okkur. Fallorka hafði þá strax frumkvæði að vinna þetta í sátt með okkur og vildi gera eitt og annað til að létta okkur lífið og jafnframt þakka fyrir hvað við vorum tilbúin að liðka fyrir þessari framkvæmd. Fallorka hefur nú þegar látið girða stóran hluta af okkar svæði með tilheyrandi merkingum og einnig kostað uppsetningu á yfirskotsvörn á riffilsvæði. Þess má að sjálfsögðu geta að Skotfélag Akureyrar kaupir alla sína raforku af Fallorku og er það því einlæg ósk okkar að allir okkar félagsmenn geri slíkt hið sama til að tryggja áframhaldandi farsælt samstarf.