Lög Skotfélags Akureyrar

1. gr.

Félagið heitir Skotfélag Akureyrar. Heimili þess og varnarþing er á Akureyri.

2. gr.

Tilgangur félagsins er þessi:
a) Að gæta hagsmuna félagsmanna.
b) Að efla almennan áhuga á skotíþróttinni.
c) Koma upp góðri aðstöðu til skotæfinga og skotmóta svo og félagslegri aðstöðu fyrir
félagsmenn.
d) Stuðla að fræðslu um málefni er snerta skotfimi, skotvopn og skotfæri svo og
lög, reglugerðir og reglur sem gilda hverju sinni í landinu og tengjast markmiðum félagsins.

3. gr.

Félagi getur hver sá orðið sem er íslenskur ríkisborgari. Erlendir ríkisborgarar geta orðið félagar í Skotfélagi Akureyrar, séu þeir búsettir hér á landi. Um inntöku þeirra gilda sömu reglur og um íslenska ríkisborgara.

4. gr.

Félagar greiða árgjald til félagsins. Upphæð árgjalds er ákveðin á aðalfundi.  Félagi nýtur fullra réttinda ef hann er skuldlaus við félagið. Skuldi félagsmaður árgjöld fyrir tvö ár má stjórnin víkja honum úr félaginu að undangenginni innheimtutilraun. Aðalfundi er heimilt að setja sérstakt inntökugjald í félagið.

5. gr.

Stjórn félagsins skipa fimm menn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi.
Í varastjórn skal kjósa tvo menn.
Formaður er kosinn til tveggja ára. Aðrir stjórnarmenn eru einnig kosnir til tveggja ára og skulu aðeins kosnir tveir stjórnarmenn og einn varamaður í senn enda eigi þá tveir stjórnarmenn og einn varamaður eftir ár af sínu kjörtímabili. Ennfremur skal kjósa tvo skoðunarmenn reiknings. Á fyrsta starfsfundi sínum skal nýkjörn stjórn skipta með sér verkum.
Stjórnin hefur í hendi sér allar framkvæmdir félagsins á milli aðalfunda. Heimilt er stjórninni að skipa í nefndir til þess að annast afmörkuð verkefni. Í allar fastar nefndir skal kjósa á aðalfundi.
Allir skuldlausir félagsmenn um síðustu áramót hafa kosningarétt og eru kjörgengir við kosningu til stjórnar.
Láti stjórnarmaður af störfum á kjörtímabili sínu, skal varamaður kallaður til starfa í stjórn sem þá skiptir með sér verkum að nýju ef nauðsyn krefur.
Reikningsár félagsins er almanaksárið.

6. gr.

Stjórninni ber að gæta hagsmuna félagsins í öllum greinum. Stjórnin getur enga fullnaðarákvörðun tekið, nema þrír stjórnarmenn séu henni fylgjandi.

7. gr.

Aðalfund skal halda ár hvert og félagsfundi svo oft sem stjórnin ákveður eða skrifleg ósk kemur frá eigi færri en 10 félagsmönnum.
Til aðalfundar skal boða með minnst 10 daga fyrirvara og er hann lögmætur sé löglega til hans boðað, án tillits til þess hversu margir mæta.
Á aðalfundi eða félagsfundum skal kjósa sérstakan fundarstjóra. Á aðalfundi skulu mál tekin fyrir í þeirri röð sem hér segir:
1. Skýrsla stjórnar.
2. Lagðir fram reikningar, samþykktir af skoðunarmönnum reiknings.
3. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga. Reikningar bornir undir atkvæði.
4. Lagðar fram tillögur að breytingum laga og reglugerða félagsins, ef um er að ræða.
5. Kosning stjórnar, varastjórnar og skoðunarmanna reiknings, skv. 5. gr. laga félagsins.
Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum allra mála nema lagabreytinga. Við lagabreytingu þarf 2/3 greiddra atkvæða til að samþykkja tillögu. Fái tveir eða fleiri jafnmörg atkvæði í kosningu skal kjósa um þá sem jafnmörg atkvæði fengu að nýju. Verði þeir aftur jafnir, ræður hlutkesti.
6. Önnur mál.

8. gr.

a) Tillögur til lagabreytinga skal afhenda stjórn félagsins fyrir 31.desember og birtir stjórnin félagsmönnum þær með fundarboði. Ekki verða greidd atkvæði um aðrar tillögur til lagabreytinga en þær sem birtar eru með fundarboði og breytingartillögur við þær. Heimilt er þó að taka fyrir á aðalfundi tillögur til breytinga á lögum félagsins sem síðar koma fram, undir dagskrárliðnum lagabreytingar ef 2/3 hluti atkvæðisbærra fundarmanna eru því samþykkir.
b) Tilkynningar um framboð til stjórnar og formanns skulu berast fráfarandi stjórn eigi síðar en 15.febrúar. Hafi ekki nægilegur fjöldi gefið kost á sér á þeim tíma, er stjórn heimilt að framlengja framboðsfrestinn, enda sé það auglýst á heimasíðu félagsins.

9. gr.

Málgagn félagsins er heimasíða þess, sem er á slóðinni www.skotak.is . Þar eru reglulega birtar allar nauðsynlegar upplýsingar um félagið. Stjórn skipar ritstjóra síðunnar en er sjálf ábyrg fyrir innihaldi hennar.

10. gr.

Enginn félagsmaður á tilkall til hluta af eignum félagsins, þótt hann hverfi úr félaginu eða félaginu verði slitið. Enginn félagsmaður ber ábyrgð á skuldbindingum félagsins með öðru en gjöldum sínum.

11. gr.

Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi.

12. gr.

Félaginu verður ekki slitið nema á aðalfundi. Á sama fundi skal ráðstafa eignum félagsins.

 

Uppfært skv. samkþykktum lagabreytingum á aðalfundi mars 2023